1. gr.
Félagið heitir Félag pípulagningameistara.
2. gr.
Starfssvæði félagsins er landið allt, en heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
3. gr.
Tilgangur félagsins er að efla samvinnu meðal pípulagningameistara, stuðla að menningu og menntun stéttarinnar og gæta hagsmuna félagsmanna.
4. gr.
Inngöngu í félagið geta þeir einir fengið, sem hafa meistararéttindi og löggildingu í pípulögnum.
Inntökubeiðni skal senda til félagsstjórnar ásamt eftirfarandi upplýsingum:
1. Kennitala
2. Lærimeistari
3. Útgáfudagur sveinsbréfs
4. Útgáfudagur meistarabréfs
5. Mynd

Inntökubeiðni skal bera undir stjórnarfund og getur stjórnin afgreitt slík mál. Þegar inntökubeiðni hefur verið samþykkt er umsækjandi löglegur félagsmaður með fullum réttindum.

5. gr.
Stjórn félagsins skipa fimm menn og einn til vara, kosnir á aðalfundi. Formaður skal kosinn til eins árs í senn og þarf hreinan meirihluta til að ná kosningu.
Fáist ekki úrslit í fyrstu atkvæðagreiðslu skal kosning endurtekin milli þeirra tveggja, sem flest atkvæði hlutu. Aðra stjórnarmenn skal kjósa til tveggja ára, þannig að tveir ganga úr stjórn hvert ár. Varamaður eru kosnir til 1 árs. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
Ennfremur skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara.
Þá skal kjósa 7 manna trúnaðarmannaráð, sem stjórnin getur kallað saman.
Kosið skal þriggja manna uppstillinga. Uppstillinganefnd leggur fram tillögu um skipun stjórnar eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Þá kýs fundurinn nefndir, sem starfa í þágu félagsins.
Allar kosningar eru bundnar við fram komnar tillögur.
Einfaldan meirihluta greiddra atkvæða þarf til þess að kosningar séu lögmætar. Hafi félagsmaður haft á hendi stjórnarstörf í tvö ár getur hann færst undan að gegna stjórnarstörfum í önnur tvö ár.
Laun stjórnar skulu vera:
Stjórn félagsins greiðir ekki félagsgjald.
Stjórnarmenn fá sem nemur hæsta sveinataxta á hverjum tíma.
Leggi stjórnarmenn, eða aðrir félagsmenn, fram vinnu við sérstök verkefni skal greitt eftir samkomulagi.
Laun stjórnar skulu þó eigi fara fram yfir fjárhagsáætlun.

6. gr.
Stjórnin heldur gerðabók yfir allar fundarsamþykktir á stjórnarfundum, samkvæmt fundarsköpum félagsins.

7. gr.
Gjaldkeri innheimtir öll gjöld félagsins. Hann gerir glögga reikninga yfir tekjur og gjöld þess og ávaxtar sjóði þess í þeim lánastofnunum, sem stjórnin samþykkir. Allir reikningar skulu vera áritaðir við greiðslu. Stjórn leggur fram fjárhagsáætlun og starfar eftir henni.

 
8. gr.
Starfsár félagins er sá tími, sem líður milli aðalfunda. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
9. gr.
Árgjald skal ákveða á hverjum aðalfundi. Aðildargjöld Styrktarsjóðs eru ákvörðuð á aðalfundi félagsins og eru innheimt af stjórn félagsins. Nýir félagar greiða félagsgjald frá þeim tíma, sem þeir ganga í félagið á árinu. Félagsgjald skal innheimta á sex mánaða fresti og eru gjalddagar 5 hvers mánaðar. Heimilt er að innheimta félagsgjöld af fyrirtæki viðkomandi félagsmanns.
Hafi greiðsla ekki borist 10 dögum eftir gjalddaga, skal reikna vanskilavexti frá þeim degi.
Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjöld í 6 mánuði skal sitjandi stjórn veita honum áminningu og ef hann borgar ekki skuld sína eða semur um hana skal honum vikið úr félaginu. Félagsmaður sem vísað hefur verið úr félaginu sakir skulda á félagsgjöldum, getur sótt um inngöngu að nýju í félagið eftir að hann hefur samið um eða greitt skuld sína. Semja þarf við sitjandi stjórn. Félagsmenn greiða félagsgjöld upp að 70 ára aldri séu þeir starfandi, annars til 67ára aldurs. Aukafélagi greiðir 50% af félagsgjaldi.
10. gr.
Aðalfundur skal haldinn fyrir 1. maí ár hvert og hefur hann æðsta vald í öllum félagsmálum innan marka er lög þessi ákveða.
Aðalfund skal boða með minnst 6 daga fyrirvara.
Dagskrá aðalfundar:
1. Formaður leggur fram skýrslu um störf félagsins á umliðnu ári.
2. Gjaldkeri leggur fram til samþykktar endurskoðaða reikninga félagsins.
3. Lagðar eru fram skýrslur nefnda og til samþykktar endurskoðaðir reikningar sjóða og stofnana sem félagið á að fullu eða hluta.
4. Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár og félagsgjald og gjald til styrktarsjóðs ákvarðað.
5. Lagabreytingar ef einhverjar eru.
6. Kosning í stjórn og aðrar trúnaðarstöður.
7. Önnur mál ef réttilega uppborin
11. gr.
Auk aðalfundar skal félagið halda minnst tvo fundi á ári og skal stjórnin boða til þeirra skriflega á þeim tíma, sem hún telur heppilegastan með minnst 6 daga fyrirvara. Þó má stjórnin kalla saman fund með styttri fyrirvara ef nauðsyn krefur. Enn fremur skal boða til fundar er 1/3 eða fleiri félagsmanna óska þess. Lögmætur er fundur ef þrír úr stjórninni eru viðstaddir og löglega til hans boðað. Lögmætur er aðalfundur sé löglega til hans boðað og mættir eru 3 úr stjórn félagsins. Þó má ekki taka fullnaðarákvörðun um mál, sem ekki hefur verið sérstaklega getið í fundarboði.
12. gr.
Skylt er meistara að fara í hvívetna eftir kjarasamningum félagsins og viðkomandi sveinafélaga.
13. gr.
Við ítrekuð brot á lögum og samþykktum félagsins eða ítrekuðum kvörtunum inn á borð stjórnar þar sem ímynd félagsins bíður hnekki getur stjórnin vikið félagsmanni úr félaginu. Áður skal honum gefin áminning. Þeim, sem vísað er úr félaginu, er heimilt að skjóta ákvörðun stjórnar til félagsfundar. Úrsögn er endanleg ef 3/4 fundarmanna samþykkja hana. Sá, sem vísað er úr félaginu, má sækja um aðild að nýju, enda uppfylli hann önnur skilyrði til þess.
14. gr.
Pípulagningameistari má einungis gagnrýna störf annars pípulagningameistara á málefnalegum grundvelli og skal forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það, sem málefnið gefur ástæðu til. Pípulagningameistari ber að upplýsa viðkomandi um gagnrýni þessa með hæfilegum fyrirvara.
Bjóði nýr viðskiptavinur verkefni, sem til þessa tíma hefur verið unnið af öðrum félagsmanni, skal pípulagningameistara skylt að leita upplýsinga hjá fyrri pípulagningameistara, áður en hann tekur verkið að sér, um hvaða ástæður hann telji vera fyrir því að hann haldi ekki starfinu. Félagsmanni er skylt að veita upplýsingar þar að lútandi.

Sé félagsmaður beðinn að taka að sér sérstakt verkefni hjá einstaklingi, félagi eða stofnun, sem nýtur þjónustu annars félagsmanns, ber honum áður en verkið er hafið að fullvissa sig um að þeim pípulagningameistara sé kunnugt um að honum hafi verið falið verkefnið.

15. gr.
Pípulagningameistarar sem hætta að starfa í iðninni tímabundið eða hafa pípulagnir ekki sem aðalstarf en telja sér hag í því að vera félagar, geta verið aukafélagar í Félagi pípulagningameistara. Aukafélagar skulu, eins og aðalfélagar, lúta samþykktum og lögum félagsins. Þeir hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Aukafélagar eru kjörgengir í stjórn og nefndir. Þó mega ekki vera fleiri en einn aukafélagi í stjórn FP að formanni undanskildum. Þeir, sem vilja gerast aukafélagar, skulu senda formanni félagsins skriflega beiðni þar að lútandi og skal hún rædd og afgreidd á stjórnarfundi enda séu þeir skuldlausir við félagið. Þeir félagar, sem gerast aukafélagar greiða hálft árgjald, en strax og þeir byrja aftur að starfa sem meistarar í iðninni skulu þeir gerast aðalfélagar að nýju. Gjaldfrjálsir félagsmenn hafa ekki atkvæðarétt um ákvörðunartöku félagsgjalda. Félagsmaður, sem gengið hefur úr félaginu, getur fengið inngöngu í félagið aftur. Þetta á þó ekki við þá félagsmenn, sem vikið hefur verið úr félaginu vegna brota á lögum þess.

 
16. gr.
Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi og ræður einfaldur meirihluti að lagabreytingar verði að lögum.
17. gr.
Hætti félagið að starfa, skal skuldlausum eignum þess ráðstafað við félagsslit til Barnaspítala Hringsins.
 
18. gr.
Með lögum þessum falla úr gildi eldri lög félagsins.
Þannig samþykkt á aðalfundi 2. apríl 2022.