591-0100

Sími

piparinn@piparinn.is

Netfang

Fréttir

Neyðarástand á Suðurnesjum

Böðvar Ingi Guðbjartsson formaður FP var í viðtölum í RUV í gær fimmtudaginn 8. febrúar.

Í viðtölunum rakti hann hvað húseigendur þurfa að gera til að tryggja húseignir sínar ef það kemur til langvarandi bilunar á hitaveitu.

 Hlusta má á viðtölin hér:

Eldgosavaktin Viðtalið byrjar 35:46

Síðdegisútvarpið Viðtalið byrjar 15:04

 

Félag pípulagningameistara ásamt Samtökum rafverktaka hafa gefið út Leiðbeiningar til íbúa ef hitaveita bregst tímabundið,  leiðbeiningar eru t.d. aðgengilegar á vef HS Veitna

FP gefur út leiðbeiningar um lagnakerfi húsnæðis

 

Félag pípulagningameistara hefur í forvarnarskyni gefið út leiðbeiningar til húseigenda þar sem vakin er athygli á atriðum sem geta forðað vatnstjóni.

Í leiðbeiningunum sem gefnar eru út gefnar út í samvinnu við Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök iðnaðarins kemur fram að reynslan sýni að það geti skipt miklu máli fyrir húseigendur að þekkja lagnakerfin sín ef það t.d. bilar eða fer að leka. Með því að þekkja kerfin sé mögulegt að fyrirbyggja eða takmarka tjón..

Hér er hægt að nálgast grein sem formaður FP, Böðvar Ingi Guðbjartsson, skrifar á Vísi.

Hér er hægt að nálgast viðtal við formann FP sem var í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Hér er hægt að nálgast viðtal við formann FP sem var í síðdegisútvarpinu á Rás 2 (hefst á 03:14)

Á vef FP er hægt að nálgast leiðbeiningarnar. 

 

 

 

Um áramót

Sælir félagar


Þá hefur árið 2023 runnið sitt skeið og við minnumst sálmsins sem
Valdimar Briem orti árið 1886 Nú árið er liðið í aldanna skaut.
,,Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, nú gengin er
sérhver þess gleði og þraut, það gjörvallt er runnið á eilífðar braut, en minning þess víst skal þó vaka.”

Annáll ársins 2023
Frá síðasta aðalfundi sem haldinn var í Borgarnesi B59 15. apríl  hefur ný stjórn FP verið að vinna í fjölmörgum málum fyrir félagsmenn ásamt bandamanni okkar SI. Málefni sem ratað hafa inn á stjórnarfundi eru margskonar enda ekki nema von þar sem FP er og hefur alltaf verið öflugt og virkt félag.
Félagsmönnum er annt um sitt félag og bera  hag þess fyrir brjósti.
Réttindalausir
Árlega berast félaginu fjölmargar fyrirspurnir og ósk um aðstoð þegar tjón hefur orðið af völdum réttindalausra einstaklinga og fyrirtækja sem taka að sér vinnu við pípulagnir án þess að hafa löggiltan pípulagningameistara í forstöðu fyrir starfseminni. Stjórn FP hefur lagt áherslu á að beita sér í þeim málum sem snúa að starfsemi réttindalausra og eftir atvikum kært þessa háttsemi til lögreglu eða Neytendastofu.    
Kjarasamningar
Kjaranefnd FP hefur frá því í haust unnið með vinnumarkaðssviði SA í aðdraganda  kjarasamninga. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum eru samningsaðilar einhuga um að markmið kjarasamninga sé að ná niður verðbólgu og þar með stýrivöxtum.
Byggingarreglugerð
Snæbjörn Reyni Rafnsson löggiltur pípulagningameistari var skipaður í starfshóp sem kemur að endurskoðun byggingarreglugerðar. Leitað var til Ægis Eyberg Helgasonar um að hann ásamt Birni Ágústi Björnssyni myndi með Snæbirni samstarfsvettvang þar sem þeir geti rætt nánar þau mál sem eru undir hverju sinni.
Hátæknihópur
Haldnir hafa verið tveir fundir svokallaðs Hátæknihóps innan mannvirkjasviðs þar sem fulltrúar FP, FBE og SART eiga sæti. Fyrstu verkefni hópsins snúa að því að vinna að úrbótum á útboðsgögnum.
Menntamál
Stjórn FP fagnar úrbótum sem gerðar hafa verið á námi í meistaraskólanum og fyrirsjáanlegt er að gera þarf úrbætur sem tengjast rafrænni ferilbók.
Virkniskoðun gæðakerfis
Á nýju ári verður FP með námskeið fyrir félagsmenn í gegnum Iðuna fræðslusetur til að undirbúa félagsmenn FP undir næstu virkniskoðun á gæðakerfinu.
100 ára afmæli
Sögu og minjanefnd hefur verið virkjuð vegna sögu félagsins en FP verður 100 ára 2028. Búið er að stofna ritnefnd sem mun í janúar funda með væntanlegum skrásetjurum á sögu félagsins. Birgjar munu fá rými í bókinni þar sem saga þeirra er stór partur af okkar sögu.
Kaffibrúsakvöld sem haldið var í september tókst vel og áformað er að þau verði haldin reglulega á nýju ári.

Björgun húseigna
Í nóvember leituðu Almannavarnir til Samtaka iðnaðarins vegna neyðarástands sem þá hafði verið lýst yfir í Grindavík. Kannað var hvort SI gæti sett saman hópa pípara og rafvirkja sem gætu komið að björgun húseigna frá yfirvofandi skemmdum á lagnakerfum. Félagsmenn FP brugðust þegar í stað við og fjölmenntu til Grindavíkur 23. nóvember og komu hita á liðlega 80 hús.
Evrópskt samstarf
Undirritaður fór til Brussel í nóvember sem fulltrúi FP inn á sjálft Evrópuþingið ásamt systrasamtökum okkar GCP Europe þar sem við fengum áheyrn þingmanna ásamt fyrirlestrum um hin ýmsu mál, meðal annars er snúa að gervigreind framtíðarinnar og má með sanni segja að gervigreindin mun líklega ekki ógna störfum pípara í komandi framtíð. GCP Europe eru samtök þar sem fagfélög pípara í Evrópu koma saman til að fjalla um málefni fagsins og sameiginlega snertifleti. GCP Europe hefur síðan góð tengsl og tengiliði við Evrópuþingið.
Áhyggjur Evrópusambandsins eru skortur á iðnmenntuðu fólki. Ungt fólk er ekki að skila sér í iðnnám og allar upplýsingar sýna að árið 2030 muni vanta um og yfir 3 milljónir iðnmenntaðra einstaklinga.
 Á málstofu GCP Europe var undirritaður spurður að því hvað við á Íslandi værum að gera varðandi þennan málaflokk þar sem mikil aðsókn er í iðnnám á Íslandi.
Undirritaður taldi það vera fyrst og fremst vegna þess að fagið er lögverndað og sá sem hyggur á að mennta sig í pípulögnum á Íslandi mun eignast starfsöryggi þar sem fagið hefur með almannahagsmuni að gera og að það má ekki hver sem er vinna við fagið nema að hafa öðlast réttindi.
Evrópusambandið fór í vegferð fyrir nokkrum árum við að fella niður allar hindranir og leyfa öllum sem vilja vinna við hvaða iðnaðarstarf sem er án réttinda. Allt var þetta undir nafni “atvinnufrelsis”, frelsi einstaklingsins að fá að vinna við hvað sem er og ekki vera með þessar “hindranir”.
Ég taldi þetta vera aðal ástæðuna fyrir því að ungt fólk velur ekki iðnnám í Evrópu. Til að auka áhuga ungs fólks á iðnnámi þarf að koma á kröfum um réttindi á ný.
Eftir að undirritaður hafði lokið máli sínu mátti heyra saumnál detta! Allur fundurinn var sammála um að þetta væri vandamálið, boltinn væri hjá þeim.
Komið hefur fram að Evrópusambandið ætlar að fjárfesta töluverðum upphæðum við að efla áhuga ungs fólks á iðnnámi á ný og talað er um hetjurnar í þeim efnum.
Undirritaður er svo sem sammála um að iðnmenntað fólk eru hetjur sem halda samfélögum gangandi en til að ungt fólk velji iðnnám þarf Evrópa að beita sér fyrir því að lögvernda á ný iðngreinarnar, eins og Þjóðverjar eru að gera í kappi við tímann.
Vonandi munu ráðamenn okkar hér á Íslandi læra af reynslu Evrópu  og standa vörð um lögverndun iðngreina til að tryggja góða iðnmenntun hér á landi.


Kæru félagsmenn
SAMSTAÐA – HAGSMUNIR – SÝNILEIKI var niðurstaða stefnumótunar FP.
Höldum þessum gildum á lofti.

Fyrir hönd stjórnar FP óska ég ykkur gleðilegra hátíðar og farsældar á nýju ári.
Mbk.
Böðvar Ingi Guðbjartsson
Formaður Félags pípulagningameistara


Image
Félag Pípulagningameistara eru hagsmunasamtök löggildra pípulagningarmeistara sem eru meðlimir.
Stórhöfði 29, 110 Reykjavík
Sími: 591-0100
Netfang: piparinn@piparinn.is