Mikilvægt er að ganga úr skugga um það að lagnakerfi heimilisins sé í lagi fyrir veturinn, þegar fólk hefur jafnvel haft slökkt á ofnum yfir allt sumarið.
Þetta segir Böðvar Ingi Guðbjartsson, formaður Félags pípulagningameistara, í samtali við mbl.is.
Félagið hefur í samstarfi við Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök Iðnaðarins gefið út leiðbeiningar sem húseigendur geta tileinkað sér til þess að fyrirbyggja bilanir eða vatnstjón.
Skoða ofna og gólfhita
Í tilkynningu frá félaginu eru lagðar til aðgerðir sem húseigendur eru hvattir til að grípa til svo minni líkur séu á vatnstjóni og bilunum. Aðgerðirnar eru sagðar bæði einfaldar og mikilvægar.
Ef hús er hitað með ofnum eru húseigendur hvattir til þess að skoða hvern ofn fyrir sig, hreyfa ofnkrana og kanna hvort ofnarnir virki sem skyldi. Einnig sé vert að skoða hvort ryðblettir séu farnir að myndast á ofnum.
Þar sem gólfhiti er til staðar eru húseigendur hvattir til þess að prófa hvort hitaskynjarar bregðist rétt við þegar hiti er hækkaður, í sumum tilfellum þarf að skipta um rafhlöður, þar sem skynjarar eru ekki víraðir.
Hafa samband við fagmann til að forða tjóni
Böðvar segir vatnstjón vera ívið algengari á veturna og á haustin.
„Þegar kólnar er fólk jafnvel búið að skrúfa fyrir ofnana í lengri tíma og þegar skrúfa á frá getur það gerst að pinnar séu fastir. Það þarf að verða ákveðin vitundarvakning til þess að fólk viti hvernig kerfi það er með og viti hvernig þau virka og hvernig skuli umgangast þau.“
Ítrekar Böðvar það að mikilvægt sé fyrir landsmenn að nýta tímann og skoða lagnakerfi sín núna fyrir veturinn en hann vonar að vitundarvakning verði í þessum efnum.
Hann segir að ef fólk verður vart við eitthvað í kerfum sínum sem mögulega þarfnast lagfæringar sé mikilvægt að hafa samband við fagmann til þess að forða mögulegu tjóni.
Frétt á mbl.is https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/08/13/einfaldar_adgerdir_sem_fyrirbyggja_vatnstjon/