FP og fyrrum ráðherra funda
,,Áslaug Arna, fyrrverandi HVIN ráðherra og núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði samband við mig og bað um fund í kjölfar greinar sem ég sendi á Vísi þann 17. febrúar. Ég bauð Áslaugu að koma upp á skrifstofu Félags pípulagningameistara (FP) þar sem við ræddum viðfangsefni greinarinnar, stöðu meistaranáms á Íslandi.
Aðkoma Áslaugar sem ráðherra var að beina erlendum iðnaðarmönnum sem flutt hafa til Íslands á skrifstofu að nafni ENIC/NARIC (E/N) til að fá menntun sína metna. E/N fór að meta nám erlendis frá á skjön við neikvæðar umsagnir fagaðila, þar sem ekki er hægt að bera þeirra nám að jöfnu við okkar nám og var það skýrt brot á reglugerð 585/2011, þar sem meðal annars var verið að bera saman helgarnámskeið og 2. ára nám til að fá meistarabréf. Umrætt mál gerðist á vakt Áslaugar, þar sem hennar ráðuneyti bar ábyrgð á E/N.
Áslaug er sammála okkur í FP að mistök hafi verið gerð, þar sem aldrei stóð til að minnka kröfurnar hér á Íslandi varðandi iðnnám okkar Íslendinga.
Það kom Áslaugu verulega á óvart að pólsku meistarabréfin væru komin á lista hjá sýslumanni sem viðurkennd prófskírteini og í framhaldinu ákvað Áslaug að gefa frá sér yfirlýsingu um málið til að standa með okkur iðnaðarmönnum, sem lesa má hér í athugasemd.
Með þessu vonum við í FP að Hanna Katrín, Atvinnuvegaráðherra, standi með okkur iðnaðarmönnum og afgreiði kæruna sem við lögðum fram í nóvember.
- Böðvar Ingi Guðbjartsson
Áslaug Arna gefur út yfirlýsingu:
,,Ég átti í gær góðan fund með Böðvari Inga Guðbjartssyni, formanni Félags pípulagningameistara, um viðurkenningu á iðnmenntun erlendra ríkisborgara sem fjallað hefur verið um síðustu daga. Samtalið var gott og mikilvægt og við áttuðum okkur á því að við værum á sama vagni hvað varðar mikilvægi iðnnáms, uppbyggingu þess og að viðurkenningar á námi að utan væri aðgengilegt en á því væru skýrar og jafnmiklar kröfur og við gerum hérlendis.
Sagan á sér rætur í því að við höfðum fengið athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA um að kerfið okkar til viðurkenningar á öllu erlendu námi uppfyllti ekki kröfur um skýrleika - hvergi væri að finna leiðbeiningar né upplýsingar á einum stað um kröfurnar sem eru gerðar til viðurkenningar á menntun eða hæfi, né um ferlið.
Ýmsar áætlanir stjórnvalda miða í þá átt að einfalda kerfið varðandi fólk af erlendum uppruna svo það eigi þess kost að fá menntun frá heimalandi sínu metna og bjóðist hér störf við hæfi, þar sem við höfum fengið fyrrnefndar athugasemdir um óskýrleika og tafir á kerfinu. Það er þó rétt að taka fram að engar áætlanir eða aðgerðir hafa verið í þá átt að slá af þeim kröfum sem við gerum til þess starfsfólks sem sinnir ákveðnum störfum.
Enn eru fagaðilar í hverri grein sem meta síðan kröfurnar. Á meðan ég var ráðherra kom upp eitt mál sem var kært til ráðuneytisins þar sem það er enn í ferli. Síðan þá hefur sýslumaður þó afgreitt málin á grunni þess máls, án þess að það hafi fengið skoðun að nýju.
Ég er sammála Böðvari Inga að sýslumanni ber að bíða með afgreiðslu sambærilegra mála á meðan niðurstöður liggja fyrir varðandi kæruna enda ber sýslumanni samkvæmt lögum að kanna réttmætt gagna þegar verið er að meta nám erlendis frá.
Iðan fræðslusetur, þar sem meðal annars fulltrúar Samtaka iðnaðarins sitja, eru fagaðilar sem leggja mat á iðnnám. Það eru allir sammála um að mikilvægi þess að skýrt sé hvaða kröfur þurfi að uppfylla.
Ég mun, hér eftir sem hingað til, leggja mig fram við að tryggja að iðnám verði ekki gjaldfellt, heldur verði einmitt gætt að því að ferlið sé áfram skýrt og kröfurnar ríkar. Ég hef alltaf verið skýr um hve mikilvægt er að menntakerfið svari eftirspurninni eftir iðnnámi og að menntakerfið mennti fyrir samfélagið og ekki síst atvinnulífið.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir”