Stjórnsýslukæru pípara vísað frá
Stjórnsýslukæru pípara vísað frá
Hefði átt að beinast að sýslumanni
Óskar Bergsson This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Atvinnuvegaráðuneytið hefur vísað frá stjórnsýslukæru Félags pípulagningameistara (FP) þar sem þess var krafist að ákvörðun ENIC-NARIC (EN) um meistararéttindi pólsks pípulagningamanns yrði afturkölluð. Ástæða frávísunarinnar er sú að kæran beindist að ákvörðun ráðuneytisins, en hefði átt að beinast að ákvörðun sýslumanns um að láta af hendi meistarabréfið, sem fékkst án þess að tilskilin leyfi væru fyrir hendi.
Hefur ekki áhrif á dómsmálið
Böðvar Ingi Guðbjartsson formaður segir að niðurstaða ráðuneytisins hafi verið fyrirsjáanleg.
„Samtök iðnaðarins (SI) tóku ákvörðun um að kæra ákvörðun ráðuneytisins um að gefa út meistararéttindi til handa einstaklingi sem hafði ekki lokið formlegu námi, en hefði átt að kæra ákvörðun sýslumanns sem samþykkti leyfisveitinguna. SI verður að svara fyrir af hverju kærunni var vísað frá þar sem lögfræðingar þeirra ráðfærðu sig við lögfræðistofu við undirbúning stjórnsýslukærunnar.“
FP hefur höfðað dómsmál til ógildingar á ákvörðun sýslumanns og er málið nú rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
„Þessi úrskurður ráðuneytisins hefur engin áhrif á dómsmálið sem er nú rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur,“ segir Böðvar Ingi.
Samtök iðnaðarins, Tækniskólinn, Iðnmennt og Félag iðn- og tæknigreina hafa sent bréf á fjögur ráðuneyti þar sem vakin er athygli á þeirri mismunun sem á sér stað varðandi kröfur sem gerðar eru á Íslandi og í Póllandi. Framangreind félög lýstu því yfir að „pólska meistaraprófið skorti tímalengd og inntak í samanburði við íslensk meistarapróf“.
Myndatexti: Ljósmynd/BIG. Kæra: Pípulagningameistarar telja starfsréttindum sínum ógnað.

