Kvennastarf viðtal við Bryndísi Einarsdóttur
Bryndís Einarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í rafvirkjun. Hún lauk stúdentsprófi af félagsfræði- og íþrótta og afrekssviði í Flensborg, áður en hún byrjaði í rafvirkjun.
Bryndís hefur alla tíð verið mikið í handbolta og mótorkrossi og flutti til íslands fyrir fjórum árum síðan eftir að hafa búið í Svíþjóð í nokkur ár. Hún skráði sig í fjarnám í sálfræði við Háskólann á Akureyri og hóf störf samhliða því hjá vélaverkstæði VHE, sem voru styrktaraðilar hennar í mótorkrossi. Bryndís vann þá á lager hjá fyrirtækinu og var mikið að flakka á milli starfsstöðva með varahluti og þá má segja að áhuginn á rafvirkjun hafi kviknað að alvöru. „Þá hugsaði ég bara: hvað er ég að gera í sálfræði? Ég ætla að fara að skoða iðnnám.“
Bryndís hóf því nám á hraðferð í rafvirkjun sem eru einungis tvö og hálft ár. „Mér fannst námið mjög áhugavert og ég var með endalaust af spurningum,” segir Bryndís og bætir við að það hafi verið mjög gaman að læra með hópi af fólki á ólíkum aldri sem allt deildi sömu ástríðu fyrir faginu. „Þarna áttaði ég mig betur á því hversu mikilvægt rafmagn er og hvaða fjölbreyttu möguleikar felast í faginu. Fólk er orðið svo háð rafmagni í dag og lítið hægt að gera án rafmagns. Það er sífellt verið að fjarlæga fólkið frá færibandinu en það þarf samt að halda færibandinu gangandi.“
Bryndís hefur verið að vinna mikið við iðnrafmagn undanfarið og segist heillast sérstaklega að þeim hluta rafvirkjunar. „Iðnrafmagn er aðeins flóknara og mér finnst það sérstaklega áhugavert, ekki síst hvað varðar stýringar og þá fjölbreyttu möguleika sem felast í þessum verksviðum.“
Bryndís segir landslagið í iðngreinum vera að breytast og mun fleiri konur starfa við rafvirkjun en hún bjóst við. „Það eru fullt af konum sem starfa við rafvirkjun og ég mæli eindregið með því, sértaklega fyrir stelpur og konur, að taka skrefið og sækja um. Þetta er miklu stærra svið en maður heldur. Það eru gríðarlegir möguleikar í rafmagni og bara iðngreinum yfir höfuð,“ segir Bryndís og bætir við að aldur eigi ekki að standa í vegi fyrir því að hefja nám. „Þó þú sért komin á einhvern ákveðinn aldur þá mæli ég samt með bara að kýla á þetta. Ég trúi því varla að námið sé þegar búið, og nú er ég að útskrifast, komin með frábæra vinnu og fullt af spennandi tækifærum í framtíðinni.“
Þessi grein birtist á FB hópnum Kvennastarf.

