piparinn@piparinn.is

Netfang

Fréttir

Svar FP við svari ráðherra

Pólitík í pípum sem leka

Böðvar Ingi Guðbjartsson skrifar 

 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (HVIN), sem einnig á sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins, notar stöðu sína í pólitískum tilgangi á síðustu dögum kosningabaráttunnar og snýr hlutunum á hvolf með svari sínu við grein um iðnnám.

Eitt af því sem er rétt í grein HVIN er að hún hefur engu breytt varðandi kröfur iðnnáms hér á Íslandi.

Breytingin sem hefur hins vegar átt sér stað er að helgarnámskeið í Austur-Evrópu er lagt að jöfnu við tveggja ára meistaraskóla hér á Íslandi. Málarekstur í þessu máli byrjaði löngu áður en ég var beðinn um að taka sæti á framboðslista. Ráðuneytið veit það vel.

HVIN hefur vitað af málinu í nokkra mánuði án þess að bregðast við. Einnig er búið að kæra málið til HVIN. Grein ráðherra er fyrir neðan virðingu ráðherra og stjórnmálamanns að gefa í skyn að störf mín fyrir Félag pípulagningameistara séu í flokkspólitískum tilgangi.

ENIC/NARIC, sem er í boði HVIN, tekur það skýrt fram að þau ætla ekki að taka mark á neikvæðri umsögn frá Iðunni fræðsluseturs þar sem skýrt er tekið fram að ekki sé hægt að bera að jöfnu tveggja ára nám í meistaraskóla hér á Íslandi vs. helgarnámskeið í Austur-Evrópu. Samtök iðnaðarins telja að þarna sé vegið að iðnnámi Íslendinga. Með þessu nær hugtakið inngilding nýjum hæðum hér á Íslandi við það að bjóða fólk velkomið inn í samfélagið á jafnræðisgrundvelli og í þessu tilfelli inn á vinnumarkaðinn þar sem íslenskum iðnaðarmönnum er mismunað sakir þjóðernis.

Ef þetta fær að staðast geta nýútskrifaðir iðnsveinar á Íslandi gert þá kröfu að fá einnig afhent meistarabréf þó að þeir hafi ekki farið í meistaraskóla. Það má ekki mismuna iðnaðarmönnum á grundvelli þjóðernis.

Iðnmenntað fólk frá Íslandi á heimtingu á að vita af hverju ráðherra iðnaðarmanna, HVIN, stendur ekki með sínu fólki og að farið sé að lögum í landinu.

Kosningarnar á laugardaginn skipta miklu máli og að þeir sem fara með völdin í landinu standi með sínu fólki.

Iðnaðarmenn koma til með að kjósa þann flokk sem stendur vörð um hagsmuni iðnaðarmanna sem eiga samleið með hagsmunum neytenda sem þiggja þjónustu iðnaðarmanna.

Höfundur er formaður Félags pípulagningameistara.

Ráðherra svarar FP

Pólitík í pípunum

Grein á visir.is 28.11.2024

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir skrifar 

 

Formaður félags pípulagningameistara, sem einnig á sæti á framboðslista Miðflokksins, notar stöðu sína í pólitískum tilgangi á síðustu dögum kosningabaráttunnar og snýr hlutum á hvolf í nýlegri grein um iðnnám. Grein hans er í besta falli mjög misvísandi en mér er ljúft og skylt að svara henni málefnalega.

  • Engar áætlanir eða aðgerðir hafa verið í þá átt að slá af þeim kröfum sem við gerum til þess starfsfólks sem sinnir ákveðnum störfum, þá síst iðnaðarmönnum.
  • Ég hef engu breytt varðandi kröfur á undanförnum árum þó ég hafi einfaldað ferla almennt svo fólk sem hingað kemur og starfar með nám að baki sem sálfræðingar, læknar eða iðnaðarmenn geti starfað hér á landi. Ferlið hefur verið gert rafrænt og skýrt svo að fólk fái svör hvað því vantar upp á í stað þess að fá aðeins neitun frá kerfinu. Við höfðum áður fengið athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA um að kerfið okkar uppfyllti ekki kröfur um skýrleika - hvergi væri að finna leiðbeiningar né upplýsingar á einum stað um kröfurnar sem eru gerðar til viðurkenningar á menntun eða hæfi, né um ferlið. Um það snerust breytingarnar.
  • Málið sem um ræðir snýst um pólskan pípulagningameistara sem lauk iðnmeistaraprófi samkvæmt þeim reglum sem gilda í heimalandinu og sótti um meistarabréf hér á landi. Umsóknin fór hefðbundna leið frá ENIC NARIC (E/N) skrifstofunni til IÐUNNAR-fræðsluseturs (þar sem fulltrúar SI sitja - þar eru fagaðilarnir sem leggja mat) sem veitti jákvæða umsögn um erindið. E/N afgreiddi erindið skv. þeirri niðurstöðu. Síðar var beðið um breytingu á því án rökstuðnings. Ráðherra stígur ekki inn í slíkt og hefur ekki heimildir til þess fyrr en það koma efnislegar athugasemdir og kæra, þá kemur það til meðferðar til ráðuneytisins. Ekki er hægt að tjá sig nánar um einstök mál.

Ég hef alltaf staðið með iðnmenntun og iðnaðarmönnum og ætla því ekki að sitja undir ámælum um annað. Eitt fyrsta frumvarpið mitt sem óbreyttur þingmaður var að greiða leið iðnmenntaðra í háskóla, til þess að eyða þeirri mýtu foreldra að börnin þeirra þyrftu stúdentspróf til að geta menntað sig meira. Ég hef alltaf verið skýr um hve mikilvægt er að menntakerfið svari eftirspurninni eftir iðnnámi og að menntakerfið mennti fyrir samfélagið og ekki síst atvinnulífið, að eldri nemendur fái pláss í kvöld- og helgarnámsskeiðum og svo framvegis. Það er partur af menntastefnu Sjálfstæðisflokksins.

Kosningarnar á laugardaginn skipta miklu máli, ekki síst fyrir harðduglegt vinnandi fólk. Það fólk situr nú undir ámæli frá Samfylkingunni sem vill skattleggja það meira en nú þegar er gert. Formaður Félags pípulagningarmanna ætti að frekar að verja kröftum sínum í að verjast þeim skattahækkunum sem kunna að vera framundan ef vinstri menn setjast hér við völd. Það eru gild rök fyrir því að píparar, smiður, rafvirkjar, hárgreiðslumeistarar, bakarar og aðrir iðnaðarmenn stofni einkahlutafélag utan um þjónustu sína eða rekstur. Við skulum gera fólki kleift að skapa, taka áhættu og ná árangri í störfum sínum. Við eigum fyrst og fremst að bera virðingu fyrir vinnandi fólki og mikilvægu framlagi þess til samfélagsins. En ekki boða „plön” sem þeim er síðan ætlað að greiða fyrir með hærri sköttum.

Til þess þurfum við ríkisstjórn á hægrivæng stjórnmálanna og eina leiðin til þess er að Sjálfstæðisflokkurinn verði stærri á laugardaginn.

Höfundur er ráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður.

FP hefur áhyggjur af gjaldfellingu iðnnáms.

Félag pípulagningameistara hefur áhyggjur af gjaldfellingu iðnnáms.

Grein sem birtist á visir.is 27.11.2024

Af hverju er ráð­herra Sjálf­stæðis­flokksins að gjald­fella ís­lenska iðn­námið?


Böðvar Ingi Guðbjartsson skrifar 

 

Undirrituðum var bent á að erlendir iðnmeistarar frá Austur-Evrópu væru komnir inn á lista hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) sem löggiltir iðnmeistarar. Þeir eru þar með komnir í beina samkeppni við íslenska iðnmeistara án þess að hafa farið í meistaraskóla, eins og íslensk lög gera ráð fyrir. Íslenskir iðnaðarmenn þurfa að fara í tveggja ára nám í meistaraskóla, að loknu sveinsprófi, til að komast á lista hjá HMS. Viðkomandi þarf að hafa meistarabréf, útgefið af sýslumanni, og í framhaldinu getur hann tekið að sér úttektarskyld verkefni.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (HVIN) Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur sett það í hendurnar á ENIC/NARIC að meta menntun erlendra iðnaðarmanna sem áður var í höndum Menntamálastofnun sem búið er að leggja niður.

Iðnnám á Íslandi er að jafnaði fjögur ár (hægt er að stytta það með Ferilbók), en víða í Austur-Evrópu er það þrjú ár. Einstaklingur sem hefur lokið sveinsprófi í Austur-Evrópu getur sótt um meistarabréf í sínu landi með því að fara á helgarnámskeið. Í Austur-Evrópu eru engir meistaraskólar. Það er ekki hægt að bera saman nám sem ekki er til við meistaraskólann hér á Íslandi.

Inni á síðu ENIC/NARIC er hægt að skoða mat á námi til iðnmeistaraprófs – fordæmi frá 1996 – og þar eru meistarabréf frá Danmörku og Noregi borin saman við meistarabréf frá Íslandi. Meistarabréf frá Austur-Evrópu eru ekki á þeim lista.

Undirritaður bað um að fá að sjá gögnin en fékk ekki að sjá þau og var borið við persónuvernd. Þær upplýsingar sem voru gefnar var að gögnin litu vel út, væru með stimpli og mynd af viðkomandi, þó svo að ekki hafi verið hægt að upplýsa um innihaldið. Eini tilgangurinn með því að skoða þessi gögn var til að bera þau saman við brautarlýsingar meistaraskólans hér á Íslandi.

ENIC/NARIC, ásamt HMS og sýslumanni, sem gefur út meistarabréfin hér á Íslandi, virðast hafa komist að þeirri niðurstöðu að þriggja ára iðnnám í Austur-Evrópu sé miklu betra en hið íslenska. Það sé svo öflugt að sveinar á þeim slóðum þurfi ekki að fara í tveggja ára viðbótarnám í meistaraskóla, eins og iðnaðarmenn á Íslandi, til að fá meistarabréf.

Meistarabréfið veitir leyfi til atvinnurekstrar í lögverndaðri iðngrein ásamt heimild til að taka nema á samning.

Ef þetta fær að staðist geta nýútskrifaðir iðnsveinar á Íslandi gert þá kröfu að fá einnig afhent meistarabréf þó að þeir hafi ekki farið í meistaraskóla. Það má ekki mismuna iðnaðarmönnum á grundvelli þjóðernis.

Framtíð Meistaraskólans

Meistaraskólinn á Íslandi er viðbótarnám við framhaldsskóla á fjórða hæfniþrepi, samkvæmt lögum nr. 92 frá 2008. Markmið námsins er að veita þeim sem lokið hafa sveinsprófi fræðslu og þjálfun til að stjórna verkum, kenna nýliðum fagleg vinnubrögð, öryggisreglur og iðnfræði. Eftir nám geta meistarar tekið sveina í verklegt nám í iðngreininni og rekið eigin fyrirtæki lögum samkvæmt, þar sem kennt er meðal annars almenn lögfræði og reglugerðir sem gilda hér á Íslandi. Meistaraskólinn hefur þróast í gegnum árin og er fyrst og fremst til að undirbúa verðandi meistara til að axla þá ábyrgð sem á þeim hvílir varðandi mannvirkjagerð, fræðslu iðnnema og almennan rekstur fyrirtækja.

Hver verður framtíð meistaraskólans hér á Íslandi ef útspil HVIN fær að standa? Eitt er víst: Jafnræði þarf að ríkja. Það gengur ekki upp að iðnaðarmaður sem ekki hefur farið í meistaraskóla fái meistarabréf hér á landi frá sýslumanni og þar með þau réttindi sem meistarabréfið tekur til. Einnig þarf að fá á hreint af hverju HMS, sem á að tryggja að mannvirki hér á Íslandi standist gæðakröfur og sýslumaður samþykkir þetta útspil ráðherra? Með því er verið að gjaldfella iðnnám hér á landi.

Áhyggjur mínar snúa að gjaldfellingu íslenska iðnnámsins. Þetta gerist á sama tíma og aðsókn í iðnnám hefur stóraukist og við glaðst yfir því að ungt fólk sé að velja iðnnám til að búa sig undir framtíðarstörf.

Áhyggjur víða í Evrópu

Í fyrra fór ég á ráðstefnu í Brussel. Þar komu fram áhyggjur í ýmsum löndum Evrópu vegna þess að ungt fólk skilar sér ekki í iðnnám. Það hefur gerst þrátt fyrir að Evrópa hafi fjarlægt hindranir fyrir því að hver sem er megi vinna við iðnaðarstörf, faglærðir og ófaglærðir. Á ráðstefnunni var ég spurður hver væri helsta ástæðan fyrir mikilli aðsókn í iðnnám á Íslandi. Svarið var einfalt: Lögverndun iðngreina veitir þeim sem leggja það á sig að mennta sig starfsöryggi sem er mikil gæðatrygging fyrir neytendur. Víða í Evrópu er mikil umræða um að snúa þessari þróun við og löggilda iðngreinar á ný. Það hafa t.d. Þjóðverjar gert eftir að þeir afnámu löggildingar iðngreina fyrir nokkrum árum.

Í lokin vil ég undirstrika eitt mikilvægt atriði: Iðnaðarmenn frá Austur-Evrópu eru ekki verri eða betri einstaklingar en íslenskir iðnaðarmenn. Ég er aðeins að benda á gjaldfellingu íslenska iðnnámsins. HMS hefur undanfarin misseri reynt að sporna við mistökum í mannvirkjagerð. Þannig hefur verið komið upp öflugu gæðakerfi til að fyrirbyggja handvömm og mistök. Meistaraskólinn leggur sitt af mörkum við undirbúning verðandi iðnmeistara til að vinna samkvæmt gæðakerfinu.

Af hverju er ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gjaldfella íslenska iðnnámið?

Samtök iðnaðarins buðu formönnum og fulltrúum átta stjórnmálaflokka á kosningafund í Silfurbergi í Hörpu fyrir komandi kosninga. Ein af spurningunum sem lögð var fyrir formenn flokkana var hvort það ætti að efla eftirlit með starfsemi réttindalausa í iðngreinum. Sjálfstæðisflokkurinn var einn flokka sem gaf ekki upp sína afstöðu.

Eru iðnaðarmenn Íslands ein af þessum ,,stétt með stétt” sem Sjáflstæðisflokkurinn hefur fjarlægst? Er það ástæðan fyrir því að ráðherra Sjálfstæðisflokksins er að gjaldfella íslenska iðnnámið?

Guð blessi Ísland.

Höfundur er formaður Félags pípulagningameistara

 

 

Image
Félag Pípulagningameistara eru hagsmunasamtök löggildra pípulagningarmeistara sem eru meðlimir.
Stórhöfði 29, 110 Reykjavík
Sími: 
Netfang: piparinn@piparinn.is